Mánudagur 6. sept 2010

06.09.2010
Mánudagur 6. sept 2010

Moren.

Það er búið að vera bræla síðan á föstudag og ekkert lát á veðrinu. Austan og S- austan þræsingur alltaf hreint. Herjólfur kemst ekki í Bakkafjöru sökum þess að ekki er nægt dýpi í og við Landeyjahöfn. Lóðsinn er að kanna aðstæður og hvort hægt verður yfir höfuð að sigla. Ösku ógeðið úr Markarfljótinu virðist vera að stífla Landeyjahöfn.

Annars er það að frétta að Vestmannaey og Bergey lönduðu í morgun tæpum 85 tonnum hvor af ufsa. Svo er stöðugt rennirí af skipum að lesta afurðir úr Verstöðinni.

Þrándur í Götu og Fagraberg lönduðu um helgina í Ísfélagið um 2600 tonnum af makríl og þeir fá um 80 kr/kg, sem er helvíti gott verð. Íslensku skipin fá um helmingi minna. Sumir verða nú að girða sig í brók og bretta upp ermar. Þetta er alltof mikill munur og krefst skýringar af hálfu útgerðarmanna. Frændur vorir Færeyingar eru ekkert að liggja á upplýsingum um verðið sem þeir fá hér og birta það á heimasíðum skipa sinna.