Dómur Hæstaréttar um laun í veikindum og slysatilfellum.

05.03.2015
Nýverið féll dómur í Hæstarétti vegna launa í veikinda- og slysatilfellum þegar menn eru í skiptikerfi uppá hálfan hlut alltaf. 50/50
Hér fyrir neðan er greinargerð um dóminn en takið eftir að fyrst er reifað hvernig veikinda- og slysaréttur er hjá landfólki en svo er tekið á sjómönnunum fyrir neðan
 
 Veikindaréttur fellur niður í launalausu leyfi og ávinnst ekki á meðan á því stendur. Sé maður veikur þegar að launalausu leyfi kemur falla launagreiðslur niður. Þetta á ekki við um vinnuslys sem verða í aðdraganda launalauss leyfis. Sé maður veikur þegar hann hyggst snúa til baka úr launalausu leyfi á hann rétt á veikindagreiðslum hafi hann áunnið sér slíkan rétt áður en hann fór í leyfið.


Sérreglur gilda um sjómenn og í 1.mgr. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er sérstaklega fjallað um launalaus leyfi sjómanna og veikindi og slys. Þar segir: “Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju.“ Á túlkun þessa ákvæðis hefur ítrekað reynt fyrir dómi en niðurstaða Hæstaréttar er sú, að ákvæðið beri að túlka þröngt og nákvæmlega eftir orðanna hljóðan. Hugtakið „launalaust leyfi“ beri að skilja þannig að það taki ekki til þeirra tímabila þar sem sjómaður kann að hafa verið í „frítúr“ sem til er kominn vegna skipulags vinnu um borð. Sigli menn t.d. annan hvern túr og njóti 100% launa fyrir þá sem farnir eru eða 50% launa allt árið af sömu ástæðu, telst túrinn sem verið er í landi ekki launalaust leyfi í skilningi laganna. Ágreining hvað þessa túlkun varðar hefur Hæstiréttur útkljáð m.a. með dómum í málunum nr. 412/2014 og 400/2012. Annað kann að gilda um „innbyrðis greiðslumiðlun“ milli sjómanna sjálfra sem ekki er hluti af skipulagi því sem útgerðin hefur sett á sbr. HRD 385/2012, 288/2007 og 289/2007.

 

Í HRD 138/1984 var tekin afstaða til kröfu sjómanns á fiskiskipi, sem veiktist í veiðiferð en hafði áður sammælst við útgerðarmann um að taka launalaust leyfi eftir lok hennar, um laun í veikindaforföllum vegna næstu veiðiferðar á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga nr. 67/1963. Þar var fallist á þá kröfu með því að lagaákvæði þetta yrði ekki skýrt þannig að réttur skipverja, sem veiktist við vinnu sína, til launa yrði skertur sökum þess að hann hefði á veikindatímabilinu átt að vera í launalausu leyfi. Til stuðnings þessu var vísað til skýringa í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 49/1980, en þar sagði meðal annars: „Hins vegar er gert ráð fyrir að skipverji, sem forfallast við vinnu sína, haldi launum þótt hann hafi átt að fara í launalaust frí síðar.“